BBC, CNN, New York Times, The Guardian, Washington Post, Reuters, Sky News og fjölmargir miðlar til viðbótar um allan heim hafa birt fréttir um eldgosið.
Langflestir miðlanna leggja áherslu á að hraunið hafi kveikt í þremur húsum, eða þá að hraunið flæði í átt að Grindavík, sem er lýst sem „litlum fiskibæ“.
Í umfjöllun einhverra miðlanna er því haldið fram að um sé að ræða „verstu mögulegu sviðsmyndina“. Þess má geta að álíka orðalag mátti sjá í einhverjum þessara sömu miðla í síðasta gosi, sem varð kvöldið átjánda desember.
Gosið er til umfjöllunar í bresku götublöðunum. The Sun líkir ástandinu við helvíti í fyrirsögn. Daily Mail veltir fyrir sér hvort eldgosið muni hafa sömu áhrif á flugsamgöngur og eldgosið í Eyjafjallajökli 2010. Samkvæmt eldfjallafræðingi sem ræddi við blaðið eru engar líkur á því.