Barcelona tapaði 4-1 fyrir Real Madrid í úrslitaleik spænska ofurbikarsins um helgina og eru átta stigum frá toppnum í spænsku úrvalsdeildinni. Mikil umræða hefur verið um Xavi og hvort það sé farið að hitna undir honum hjá Barcelona.
„Ég elska þetta félag. Ég er hérna til að leggja eitthvað af mörkum til þess. Ef ég geri það ekki fer ég heim. Ef ég hefði ekki unnið spænska meistaratitilinn í fyrra væri ég ekki hérna,“ sagði Xavi.
„Daginn sem leikmennirnir missa trúna á mér pakka ég niður og fer. Þegar einhver segir að það sé vandamál fer ég. Þegar eigendurnir fengu mig sögðu þeir að þetta væri einn versti tíminn í sögu félagsins og við erum að breyta hlutunum. Ég er rólegur. Við erum í baráttu um þrjá titla og erum nær árangri en ekki.“
Xavi tók við Barcelona í nóvember 2021 eftir að hafa þjálfað Al Sadd í Katar. Börsungar enduðu í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar 2022 og unnu hana svona í fyrra.