Íslenska liðið mætti til Kölnar síðdegis í gær, þökk sé aðstoð frá Svartfellingum með að komast í milliriðilinn. Ómar og félagar vilja hrista af sér vonbrigðin gegn Ungverjum í síðasta leik og sýna hvað í þá er spunnið í kvöld.

„Við erum náttúrulega hundfúlir með frammistöðuna. Þetta er alls ekki nógu gott og við þurfum að skoða það og sjá hvað við getum gert betur.
Það hafa komið skorpur hér og þar sem hafa verið allt í lagi en við höfum ekki náð einum, heilum góðum leik hingað til. Það viljum við bæta. Fara að vera stöðugir í okkar leik. Mótið er ekki búið og við þurfum að vera jákvæðir áfram, megum ekki gefast upp. Við þurfum að finna lausnir og þá er allt opið í þessu,“ segir Ómar.
„Kannski eitthvað í hausnum hjá manni“
Ómar er einn af bestu sóknarmönnum heims í dag og blómstrar nánast í hverri viku með besta liði Þýskalands, en hefur verið fjarri sínu besta á EM. Hvað vantar í íslenska liðið sem hann hefur hjá Magdeburg?
„Þetta snýst ekkert um mig. Liðið þarf að spila vel, allir þurfa að spila vel. Aðalatriðið er að liðið standi sig.
Mér finnst vörnin hafa verið skárri en sóknarleikurinn. Það vantar einhvern takt eða flæði í sóknarleikinn. Það er ekki alveg nógu mikið af lausnum þar. Það er aðaldæmið. Svo þurfum við mögulega að skoða [vannýtt] færi og tapaða bolta. Þar er þetta kannski eitthvað í hausnum hjá manni,“ segir Ómar sem býr sig undir erfiðan leik í kvöld:
„Þetta verður hörkuleikur. Þeir eru með hörkulið, stabílir á öllum sviðum og gera allt vel. Það eru ekkert allt of miklar sveiflur í þeirra leik og þeir eru bara vel mannaðir.
Það verður geggjað að spila á móti Þýskalandi hérna, fyrir framan þýska áhorfendur, og við ætlum að skemma stemninguna þeirra.“
Næsti leikur Íslands á EM er gegn Þýskalandi í kvöld klukkan 19:30 að íslenskum tíma. Öflugt teymi Vísis og Stöðvar 2 er í Þýskalandi og fjallar um mótið í máli og myndum.