Fyrir rúmu ári var húsaleigulögum breytt og þar er nú kveðið á um skráningarskyldu húsaleigusamninga. Í morgun var ný leiguskrá kynnt en hún byggir fyrrnefndum skráningum. Þorsteinn Arnalds, verkefnastjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, segir hana mikilvægt tól til að fylgjast megi með þróun leigumarkaðarins.
„Þannig getum við séð hvort það sé mismunandi þróun á mismunandi svæðum og hvort það séu einhverjir tilteknir geirar leigumarkaðarins þar þróunin er að verða verri en annars staðar.“
Ný leiguvísitala byggir á leiguskránni. „Við höfum verið að reikna leiguvísitölu frá árinu 2012 á grundvelli þinglýstra samninga, sem hafði ákveðna annmarka, og sú vinna hefur orðið erfiðari þar sem þinglýstum samningum hefur fækkað. En nú erum við komin með leiguvísitölu þar sem við getum mælt ákveðinn hluta markaðarins og vísitalan sem við birtum í dag sýnir þá þróunina fyrir hefðbundnar íbúðir og þar sem leigusalinn er að leigja á markaðslegum forsendum,“ segir Þorsteinn.

Mikill verðmunur milli leigusala
Ný leigvísitala sýnir til dæmis að leiguverð hækkaði um tíu prósent á síðustu sjö mánuðum ársins, eða frá upphafsdegi vísitölunnar í maí.
Þá er mikill munur á leiguverði á milli leigusala. Fermetraverðið er yfir þrjú þúsund krónum hjá einstaklingum og leigufélögum en undir tvö þúsund krónum hjá óhagnaðardrifnum aðilum. Sé miðað við fermetraverð er leigan ríflega sextíu prósent hærri hjá hagnaðardrifnum félögum en þeim óhagnaðardrifnu.
Leiguverðið er hæst hjá fyrirtækjum sem rekin eru í hagnaðarskyni, en næsthæst hjá einstaklingum. Þar á eftir eru sveitarfélög en óhagnaðardrifin leigufélög bjóða lægstu leiguna.
Þorsteinn segir nýju vísitöluna styðja betur við alla ákvarðanatöku.
„Við getum þá aðstoðað stjórnvöld við að beina augum sínum þangað sem skóinn kreppir og það verður þar með miklu auðveldara að ná utan um leigumarkaðinn og sjá hvernig megi styðja við hann.“