Hún greinir frá þessu sjálf á Facebook síðu sinni. Hún segist munu ganga undir aðgerð og viðeigandi meðferð á næstu vikum.
„Ég geng upprétt til móts við þetta stóra verkefni, æðrulaus og bjartsýn. Allir mínir kraftar munu fara í það með fólkið mitt mér við hlið.“
Þá biður Svandís fjölmiðla um næði. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafði fyrr í dag lagt fram vantrauststillögu á hendur Svandísi vegna ákvörðunar hennar um tímabundna stöðvun hvalveiða á síðasta ári og mat umboðsmanns um að sú reglugerð hefði ekki verið lögmæt.
Áður hafði Svandís í morgun sent frá sér yfirlýsingu vegna yfirvofandi vantrauststillögu. Hún sagðist ætla að fela óháðum aðila að fara yfir stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða og ríkislögmanni að leggja mat á erindi Hvals hf. um mögulegt uppgjör vegna hvalveiðimálsins.