Neytendur

Hjón segja pakkaferð hafa verið svindl og fá 60 þúsund endur­greitt

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ferðin var auglýst sem „sólarlottó“ en ekki liggur fyrir hvert þau fóru. Myndin er frá Tenerife og er úr safni.
Ferðin var auglýst sem „sólarlottó“ en ekki liggur fyrir hvert þau fóru. Myndin er frá Tenerife og er úr safni. Getty

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur gert ferðaskrifstofu að endurgreiða hjónum 60 þúsund krónur vegna pakkaferðar sem þau fóru í síðasta sumar. Þau greiddu samtals 272 þúsund krónur fyrir ferðina, sem var auglýst sem pakkaferð á fjögurra stjörnu hóteli þar sem allt væri innifalið fyrir 130 þúsund krónur á mann. 

Ekki kemur fram hver áfangastaðurinn var, en ljóst er að um sólarlandaferð var að ræða, en hún var auglýst sem „sólarlottó“.

Viku fyrir brottför, hafði ferðaskrifstofan samband við konuna, sem var í forsvari fyrir hjónin, og tilkynnti að um prentvillu hafi verið að ræða í auglýsingu sinni og að ferðin væri ekki með fullu fæði.

Ferðaskrifstofan bauðst til að endurgreiða ferðina, en hjónin höfnuðu því boði. Síðan kröfðust þau þess að ferðaskrifstofan myndi endurgreiða þeim 180 þúsund krónur, eða eðlilegt gjald fyrir fullt fæði.

Þau hafi ekki viljað sleppa ferðinni, þar sem þau hafi verið komin með sumarfrí og fyrirvarinn mjög skammur. Þeim hafi ekki þótt spennandi að eyða fríinu á Íslandi, sem hafi verið hinn möguleikinn.

Telja ferðina svindl

Í úrskurði málsins kemur fram að hjónin líti svo á að um svindl hafi verið að ræða. Ferðaskrifstofan hafi verið að reyna að ná fólki inn sem geri ráðstafanir fyrir ferðalagið, og síðan sé ferðinni breytt með stuttum fyrirvara. Haft er eftir konunni að hún hafi ekki vitað hvort fleiri hafi lent í sambærilegu máli, en að lenda í þessu yrði ömurlegt fyrir efnalítið fólk.

Með því að fara með málið fyrir kærunefndina hafi þau viljað kanna hvort ferðaskrifstofa gæti komið svona fram.

Í kafla úrskurðarins er varðar sjónarmið ferðaskrifstofunnar segir að rangar upplýsingar hafi verið settar á netið fyrir mistök, og að hjónin hafi verið látin vita af þeim um leið og þau komu í ljós. 

Líkt og áður segir hafi þeim verið boðin endurgreiðsla, en þau hafi hafnað því. Ferðaskrifstofan segir því að hjónin hafi ákveðið að halda sig við ferðina á réttu verði.

Ekki ljóst að um mistök hafi verið að ræða

Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að hjónin ættu rétt á endurgreiðslu. Þeim hafi ekki átt að vera kunnugt um mistökin, en í úrskurðinum segir að verðið hafi ekki verið svo hagstætt að þau hafi átt að hafa hugboð að þarna væri farið með rangt mál.

„Ekki er unnt að gera þær kröfur til neytenda að þeim beri að efast um réttmæti á framsetningu tilboða fyrirtækja, jafnvel þótt um verulega lægra verð en almennt sé að ræða. Þekkt er að seljendur bjóði vörur á lágum kjörum og geta ástæður þess verið ýmsar,“ segir í úrskurðinum.

Líkt og áður segir kröfðust hjónin 180 þúsunda vegna málsins, en nefndin komst að þeirri niðurstöðu að 60 þúsund króna endurgreiðsla væri hæfileg. Þá er ferðaskrifstofunni gert að greiða 35 þúsund króna málskostnaðargjald.


Tengdar fréttir

Vísað úr pakka­ferð vegna „sýni­legrar ölvunar“ og fær endur­greitt

Ferðaskrifstofa sem rak konu úr pakkaferð á fyrsta degi þarf að endurgreiða henni ferðina. Ferðaskrifstofan sagði konuna hafa verið „sýnilega ölvaða“ en úrskurður kærunefndar vöru- og þjónustukaupa taldi að það réttlæti ekki jafn afdrifaríka ákvörðun og að vísa konunni úr ferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×