Enski boltinn

Real Madrid ýtti Man. City úr toppsætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Toni Kroos og félagar í Real Madrid enduðu í efsta sæti tekjulistans.
Toni Kroos og félagar í Real Madrid enduðu í efsta sæti tekjulistans. EPA-EFE/SERGIO PEREZ

Real Madrid var það félag sem bjó til mestan pening í fótboltaheiminum á keppnistímabilinu 2022-23.

Starfsmenn Deloitte hafa að venju tekið saman heildartekjur fótboltafélaga heimsins og það var breyting á toppsætinu í ár. Þetta er í 27. árið í röð sem fyrirtækið tekur saman listann.

Real ýtti Manchester City úr toppsætinu milli ára. Talið er að stærstu félög heimsins hafi haft samtals 10,5 milljarða evra í tekjur á síðasta keppnistímabili sem er hækkun um fjórtán prósent.

Spænska félagið hækkaði tekjur sínar um 118 milljónir evra milli ára og var því með 831 milljón evra í heildartekjur. 831 milljón evra er meira en 123 milljarðar í íslenskum krónum og því engin smá upphæð. Real Madrid hefur ekki verið á toppnum á þessum lista í fimm ár en endurheimtir nú efsta sætið.

Það munaði ekki miklu á efstu félögunum því Manchester City (826 milljónr evra) var fimm milljónum evra á eftir. Á eftir þeim komu síðan Paris Saint-Germain (802 milljónir evra), Barcelona (800 milljónir) og Manchester United (746 milljónir).

Ensku félögin Liverpool, Arsenal, Chelsea og Tottenham eru öll inn á topp tíu listanum en það vekur líka athygli að bæði Newcastle og West Ham United eru fyrir ofan ítölsku meistarana í Napoli.

Liverpool hrundi reyndar mest niður á listanum með tekjuhæstu félögunum því Liverpool datt úr þriðja sætinu niður í það sjöunda. Ástæðan er slæmt gengi, bæði í deildinni sem og í Evrópukeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×