Enski boltinn

Segja Ras­h­ford hafa sést á skemmti­stað áður en hann hringdi sig inn veikan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rashford hefur átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni.
Rashford hefur átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni. EPA-EFE/PETER POWELL

Marcus Rashford var hvergi sjáanlegur þegar Manchester United æfði á föstudag en liðið mætir Newport County í ensku bikarkeppninni á morgun, sunnudag. Rashford hringdi sig inn veikan en sást á skemmistað á aðfaranótt föstudags samkvæmt frétt The Athletic.

Mikið hefur verið um meiðsli og veikindi hjá leikmönnum Man United í vetur. Sem stendur er FA Cup, enska bikarkeppnin, eini raunsæi möguleiki liðsins á titli á leiktíðinni.

The Athletic greinir frá því að það hafi sést til Rashford á skemmistað í Belfast í Norður-Írlandi á fimmtudagskvöld, aðfaranótt föstudags. Hann hafi svo tilkynnt félaginu að hann væri veikur og gæti ekki æft á föstudeginum.

Man United vissi að hinn 26 ára gamli Rashford væri í N-Írlandi á miðvikudagskvöldið en Athletic hefur fengið staðfestingu þess efnis að hann hafi einnig verið úti að skemmta sér á fimmtudagskvöldinu. Hann sneri svo til baka til Manchester með einkaþotu snemma á föstudeginum.

Bæði Man United sem og teymið hans Rashford neituðu að tjá sig þegar Athletic hafði samband.

Erik ten Hag, þjálfari liðsins, sagði á föstudag að Rashford og Jonny Evans væru báðir veikir. Það yrði því tekin ákvörðun með hvort þeir gætu spilað degi fyrir leik.

Rashford hefur átt einkar erfitt uppdráttar á leiktíðinni. Hann hefur skorað fjögur mörk og gefið þrjár stoðsendingar í 20 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Hann gaf tvær stoðsendingar í fjórum leikjum í Meistaradeild Evrópu, skoraði hvorki né lagði upp í deildarbikarnum en gaf stoðsendingu í 2-0 sigrinum á Wigan Athletic í 3. umferð FA Cup.

Leikur Newport County og Man United er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2 á morgun, sunnudag. Útsending hefst klukkan 16.20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×