Fótbolti

Mætti á þyrlu og reið um á hesti með sverð í hönd er hann var kynntur til leiks

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arturo Vidal var kynntur til leiks með stæl er hann snéri aftur til Colo-Colo í heimalandinu.
Arturo Vidal var kynntur til leiks með stæl er hann snéri aftur til Colo-Colo í heimalandinu. Marcelo Hernandez/Getty Images

Síleska liðið Colo-Colo tjaldaði öllu til þegar knattspyrnumaðurinn Arturo Vidal snéri aftur til uppeldisfélagsins.

Vidal hóf meistaraflokksferil sinn með Colo-Colo árið 2005 áður en hann hélt til Bayer Leverkusen tveimur árum síðar. Á ferlinum hefur Vidal leikið með mörgum af stærstu liðum Evrópu. Frá Leverkusen hélt hann til Juventus áður en hann var keyptur til Bayern München árið 2015. Þá hefur hann einnig leikið með Barcelona og Inter Milan.

Á ferli sínum í Evrópu hefur Vidal unnið nánast allt sem hægt er að vinna. Hann varð ítalskur meistari fjögur ár í röð með Juventus og þýskur meistari þrjú ár í röð með Bayern München. Hann hefur einnig orðið spænskur meistari með Barcelona og ítalskur meistari með Inter Milan.

Síðustu tvö ár hefur Vidal, sem er orðinn 36 ára gamall, hins vegar leikið í Brasilíu og fer að nálgast seinni hlutann á ferlinum.

Hann snýr nú aftur til heimalandsins og ætlar sér að leika með uppeldisfélagi sínu, Colo-Colo. Það má með sanni segja að Vidal hafi verið kynntur til leiks með stæl því hann mætti á þyrlu áður en hann brokkaði um völlinn á hesti, klæddur sem kóngur með kórónu á höfðinu og sverð í hönd fyrir framan 35 þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×