Enski boltinn

Klopp hrósar Alonso: „Er að gera frá­bæra hluti“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jurgen Klopp er heldur betur hrifinn af Xabi Alonso.
Jurgen Klopp er heldur betur hrifinn af Xabi Alonso. Vísir/Getty

Jurgen Klopp mun hætta sem knattspyrnustjóri Liverpool að tímabilinu loknu og hafa ýmsir verið orðaðir við starfið. Klopp jós hrósi yfir einn mögulegan eftirmann sinn í gær og sagði næstu kynslóð knattspyrnustjóra þegar vera byrjaða að láta ljós sitt skína.

Það kom eins og þruma úr heiðskýru lofti í lok janúar þegar Jurgen Klopp tilkynnti að hann myndi hætta sem knattspyrnustjóri Liverpool eftir tímabilið. Klopp hefur verið stjóri Liverpool síðan árið 2015 og á þeim tíma unnið ensku úrvalsdeildina, Meistaradeildina, FA-bikarinn og deildabikarinn með félagiu.

Fyrrum leikmaður Liverpool Xabi Alonso er sá sem mest hefur verið orðaður við starfið hjá Liverpool í sumar. Alonso er núverandi stjóri Bayer Leverkusen og undir hans stjórn hefur liðið leikið frábærlega, vann Bayern Munchen um síðustu helgi og er nú með fimm stiga forskot á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar.

Á blaðamannafundi Liverpool í gær fyrir leikinn gegn Brentford í hádeginu í dag jós Jurgen Klopp hrósi yfir Alonso.

„Xabi er að gera frábæra hluti. Ef þú hefðir spurt mig fyrir átta vikum um Xabi Alonso þá hefði ég sagt „Guð minn góður!“

„Næsta kynslóð knattspyrnustjóra er nú þegar hér og hann er þar í fararbroddi. Fyrrum heimklassa leikmaður, frá þjálfarafjölskyldu sem hjálpar líka. Hann var eins og þjálfari þegar hann spilaði sjálfur. Fótboltinn sem hann spilar, liðin sem hann setur saman og félagaskiptin sem hann hefur náð í gegn. Algjörlega stórkostlegt.“

Klopp sagði einnig að hann kæmi ekki að leitinni að eftirmanni sínum heldur væri það í höndum eigenda félagsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×