María hefur verið búsett í New York undanfarin ár en kemur þó reglulega heim og var meðal annars með einkasýningu í Þulu Gallery fyrir jól. Í þættinum ræðir hún ræðir annars gríðarlega hraða þróun tækninnar, að mæta framtíðinni óhrædd, lífið í New York, að þróast innan listarinnar og margt fleira.
Hér má sjá viðtalið við Maríu í heild sinni:
Uppgötvaði nýjan heim
María hefur í gegnum tíðina lagt stund á alls kyns listnám.
„Þegar að ég byrjaði svo í grafískri hönnun og uppgötvaði þrívíddarhönnun þá opnaðist nýr heimur fyrir mér af því að þá gat ég gert allt. Ég var ekki góð í að gera neitt með höndunum en tölvan leyfði mér að setja allt sem ég vildi niður á blað.
Ég byrjaði að rannsaka þetta sjálf, horfði á Youtube og kenndi mér mest megnis allt sjálf til að byrja með. Svo fimm árum seinna ákvað ég að fara og læra og tók masterinn í tölvumyndlist í New York,“ segir María og bætir við að það sé frábært hversu aðgengilegt að nálgast frítt kennsluefni á Internetinu.

Segir betra að vera með tækninni í liði
Sjálf segist hún ekki hræðast tækniþróun og vill heldur taka henni fagnandi.
„Það er ekkert hægt að ákveða neitt, framtíðin kemur bara og við þurfum að díla við það. Og þá er einmitt bara best að vera sigurvegari og sjá hvað gerist.
Maður er búinn að heyra bara: Gervigreind er að fara að taka allar vinnurnar okkar. Ég persónulega er mjög ósammála. Þetta eru tæki og tól sem maður getur nýtt sér og þá er alltaf best að vera með þróuninni, læra á hana og vinna með henni í staðinn fyrir að láta hana vinna á móti sér.“
María rannsakar mikið hvernig gervigreindin getur unnið með mannkyninu og sömuleiðis hvernig er hægt að nýta sér hana bæði í lífinu og eftir að lífinu lýkur.
„Ég nálgast þetta ekki á hræðilegan hátt heldur finnst mér þetta gott tækifæri til að pæla í fallegri veruleika eftir dauðann.“