Erlent

Ung­verska þingið sam­þykkir inn­göngu Svía

Árni Sæberg skrifar
Viktor Orbán er forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orbán er forsætisráðherra Ungverjalands. Getty/Gruber

Ungverska þingið hefur samþykkt lög sem heimila inngöngu Svía í Atlantshafsbandalagið, NATO, en Ungverjar eru síðastir til þess að samþykkja inngönguna.

Greint var frá því dag að til stæði að greiða atkvæði um inngöngu Svía í NATO á ungverska þinginu í dag. Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði umsóknina verða samþykkta fyrr í dag. 

Nú greinir Reuters frá því að þingið hafi samþykkt tillöguna. Nú virðist ekkert standa í vegi fyrir því að Svíar gangi í NATO, en samþykki allra 31 meðlima bandalagsins þarf til. 

Tyrkir og Ungverjar voru tregir til að veita blessun sína

Svíar sóttu um inngöngu í NATO í febrúar í fyrra, vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Stjórnvöld í Tyrklandi og Ungverjalandi drógu bæði lappirnar í að samþykkja umsókn Svía, þó umsókn Finna, sem sóttu um á svipuðum tíma, hafi verið samþykkt af báðum ríkjum í apríl í fyrra.

Tyrkir samþykktu umsóknina loksins í janúar eftir að sænsk stjórnvöld höfðu fallist á kröfur landsins um afhendingu á meintum uppreisnarmönnum Kúrda sem tyrknesk stjórnvöld hafa haft á lista yfir þá sem þau kalla hryðjuverkamenn.

Orban og félagar meðal ungverskra stjórnvalda hafa verið hliðhollari Rússum en önnur stjórnvöld innan Evrópusambandsins. Þannig voru ungversk stjórnvöld einnig þau síðustu til að samþykkja aukinn stuðning til Úkraínu vegna innrásar Rússlands í landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×