Fótbolti

Eftir­maður Freys rekinn eftir fimm­tíu daga í starfi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magne Hoseth stýrði Lyngby aðeins í tveimur leikjum.
Magne Hoseth stýrði Lyngby aðeins í tveimur leikjum. getty/Lars Ronbog

Eftirmaður Freys Alexanderssonar með danska úrvalsdeildarliðið Lyngby hefur verið rekinn eftir aðeins fimmtíu daga í starfi.

Eftir að Freyr hætti hjá Lyngby til að taka við Kortrijk í Belgíu var Norðmaðurinn Magne Hoseth ráðinn þjálfari liðsins. Hann hafði gert frábæra hluti með KÍ Klaksvík og kom færeyska liðinu meðal annars í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Hoseth þarf nú að leita sér að nýrri vinnu því hann hefur verið rekinn frá Lyngby. Uppsögnin hefur þó ekkert með úrslit að gera. Hoseth stýrði Lyngby í tveimur leikjum sem báðir töpuðust.

Í yfirlýsingu frá Lyngby segir að Hoseth hafi ekki notið stuðnings leikmanna né þjálfarateyminu. Því hafi forráðamenn Lyngby séð sig knúna til að segja honum upp.

Þrír Íslendingar leika með Lyngby, þeir Sævar Atli Magnússon, Andri Lucas Guðjohnsen og Kolbeinn Birgir Finnsson. Lyngby er í 9. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn botnliði Hvidovre á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×