Fótbolti

Heims­meistara­mót goð­sagna fer fram á St. James Park í sumar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Emerson, Cambiasso, Materazzi og McManaman munu allir leika á HM e35.
Emerson, Cambiasso, Materazzi og McManaman munu allir leika á HM e35.

St. James Park, heimavöllur Newcastle í ensku úrvalsdeildinni, mun hýsa heimsmeistaramót fyrir 35 ára og eldri leikmenn í sumar. 

Stefnan er sett á að halda þetta nýja mót í júní á þessu ári. Átta þjóðir hafa þegar tilkynnt þáttöku sína: England, Argentína, Brasilía, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Úrúgvæ og Spánn. Samkvæmt reglum þurfa þátttakendur að vera eldri en 35 ára og hafa spilað landsleik eða eiga yfir 100 leiki í efstu deild. 

Ljóst er að flestar fótboltagoðsagnir heims falla undir þær kröfur og fyrirliðar þjóðanna hafa þegar verið kynntir til leiks. 

Steve McManaman verður fyrirliði Englands, Esteban Cambiasso hjá Argentínu, Emerson hjá Brasilíu, Christian Karembeu hjá Frakklandi, KevinKuranyi hjá Þýskalandi, Marco  Materazzi hjá Ítalíu og Diego Lugano hjá Spáni. 

Francesco Totti, Ronaldinho, Frank Lampard og Thierry Henry gætu allir klætt sig í landsliðstreyjuna aftur í sumar

Þjálfarar munu geta valið 18 leikmenn í hópinn og nokkur stór nöfn gætu stigið á svið. Fjöldi leikmanna hefur sýnt mótinu áhuga og listinn af gjaldgengum leikmönnum er langt því frá tæmandi. 

David James, Ashley Cole, Joe Cole, Frank Lampard og Robbie Fowler hafa allir látið vilja sinn í ljós að spila fyrir enska liðið. Brasilía hefur sett sig í samband við Kaka, Ronaldinho, Roberto Carlos og Rivaldo. Thierry Henry, Hernan Crespo, Carlos Puyol og Francesco Totti hafa sömuleiðis allir sýnt mótinu áhuga. 

Fyrirkomulagið verður með þeim hætti að spilað verður á heilum velli, í sjötíu mínútur í stað nítíu, og þjálfar munu geta skipt leikmönnum út og inn að vild. Til að vekja áhuga fólks og fylla völlinn mun miðaverð líklega verða mun lægra en þekkist á venjulegu heimsmeistaramóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×