Skjálftahrina hófst á Sundhnjúkagígaröðinni um klukkan fjögur í gær, svipuð þeim sem sést hafa fyrir fyrri kvikuinnskot og eldgos á svæðinu. Jarðeðlisfræðingur segir aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum hafa sýnt að kvikuinnskot væri hafið.
„En svo virðist sem að þetta innskot hafi bara ekkert náð sér á strik, þannig að þrýstingsbreytingarnar og aflögunin voru mun minni en hefur verið. Enda datt skjálftavirknin niður upp úr sex aftur, eða fyrir sex raunar, og það virðist sem að innskotið hafi bara stöðvast,“ segir Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur. Kvikugangurinn liggur frá Hagafelli í norðaustur að Stóra-Skógfelli.
„Og það er ennþá sá möguleiki að við séum að horfa á kviku færast nær yfirborði þar, en við erum ekki að sjá nein merki um það, ekki eins og staðan er núna. Líklegast er að þetta sé bara búið núna í bili, en það þýðir að við vorum ekki að aflétta neinni spennu af Svartsengi, þannig að við myndum búast við öðru innskoti bara mjög fljótlega aftur.“
Dagaspursmál
Ólíklegra sé að kvika sé enn á leið til yfirborðs.
Þú talar um möguleikann á öðru innskoti, er það þá spurning um einhverja daga?
„Já, það er þá spurning um einhverja daga.“
Aflögunargögn sýni litlar sem engar breytingar á Svartsengi.
„Það eru bara verulegar líkur á að það byrji annað kvikuinnskot á næstu dögum,“ segir Benedikt. Slíkt innskot geti þá leitt til sömu niðurstöðu og í gær, eða til eldgoss.
Fá gögn seint í kvöld
Með gervitunglagögnum sem Veðurstofunni ættu að berast seint í kvöld muni myndin af stöðunni vonandi skýrast.
„Þá ættum við að sjá skýr merki um hvort það er ennþá kvika á hreyfingu í ganginum eða ekki.“
Slíkt verði þó talið ólíklegra og ólíklegra eftir því sem lengri tími líður án nýrra vendinga. Benedikt segir atburð gærdagsins hafa aukið á óvissuna um framhaldið, fremur en að hafa eytt henni.