Enski boltinn

Klopp sagði spurningu blaða­manns heimsku­lega og gekk burt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jurgen Klopp og Erik Ten Hag spjalla saman á hliðarlínunni í leiknum í dag.
Jurgen Klopp og Erik Ten Hag spjalla saman á hliðarlínunni í leiknum í dag. Vísir/Getty

Manchester United vann 4-3 sigur á Liverpool í enska bikarnum í knattspyrnu í dag og tryggði sér um leið sæti í undanúrslitum keppninnar. Jurgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool var svekktur í viðtölum eftir leik og lét skapið bitna á blaðamanni.

Leikurinn í dag var frábær skemmtun. Sjö mörk voru skoruð og hann fór alla leið í framlengingu þar sem úrslitin réðust á lokasekúndunum.

Eðlilega var Jurgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool svekktur í viðtölum eftir leikinn. Í einu viðtalanna virtist hann sérstaklega pirraður og þegar ein spurningin var borin fram hitnaði í Þjóðverjanum.

„Frekar heimskuleg spurning,“ byrjaði Klopp á að segja en hélt síðan áfram og ræddi um leikjaálag Liverpool síðustu vikurnar.

Þegar blaðamaðurinn byrjaði síðan á næstu spurningu var líkt og Klopp hafi fengið nóg og gekk hann á brott án þess að svara spurningunni.

„Þú ert greinilega ekki í góðu formi og ég hef ekki þolinmæði fyrir þér,“ svarði Klopp áður en hann hélt á brott. Blaðamaðurinn stóð eftir hvumsa og spurning hvort Þjóðverjinn þurfi ekki aðeins að hugsa sinn gang áður en hann kemur sér fyrir við myndavélarnar næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×