„Núna er að koma ákveðið spennustig yfir okkur ofan á góða stemningu og það er bara jákvætt. Það er rosalega stór dagur framundan á þriðjudaginn og undirbúningurinn er bara flottur. Við erum hérna í geggjaðri aðstöðu, geggjaður matur og frábært hótel,“ segir Guðlaugur sem æfði ekki með liðinu í gær. Hann þurfti einfaldlega meiri hvíld en ekkert amar að honum.
„Einbeiting okkar þarf bara að liggja í því að halda áfram í þessari jákvæðni og því góða sem er í gangi hérna. Hvort sem það er inn á hótelinu eða á æfingasvæðinu. Svo er það bara þannig að liðsheildin er það sem mun gera gæfumuninn, ég er alveg viss um það.“

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.