Enski boltinn

Boehly fær að fjúka 2027

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Todd Boehly er ekki vinsæll meðal stuðningsfólks Chelsea.
Todd Boehly er ekki vinsæll meðal stuðningsfólks Chelsea. Craig Mercer/Getty Images

Búið er að ákveða að Todd Boehly láti af störfðum sem stjórnarformaður Chelsea árið 2027. Hefur hann verið andlit eiganda félagsins eftir að fjárfestingasjóðurinn Clearlake Capital keypti félagið af rússneska auðmanninum Roman Abramovich. Síðan þá hefur allt gengið á afturfótunum hjá Chelsea.

Enska götublaðið Daily Mail greinir frá. Þar segir að breytingar séu á döfinni þó Boehly fái að sitja í núverandi stöðu allt til ársins 2027. Þá mun nýr stjórnarformaður taka við. Boehly fær enn að eiga hlut í félaginu, óski hans þess, en hann mun tapa stöðu sinni sem stjórnarformaður þess.

Í frétt Daily Mail segir að það sé samþykkt meðal eigandahóps Chelsea að hægt sé að skipta um meðeiganda á fimm ára fresti. Þar sem það verða komin fimm ár síðan sjóðurinn keypti félagið árið 2027 sé þegar búið að ákveða að Boehly fái sparkið.

Sem stendur á Boehly minnihluta í fyrirtækinu en hann deildir 38,5 prósent eignarhlut með Hansjörg Wyss og Mark Walter. Restina eiga þeir Behdad Eghbali og José E. Feliciano, eigendur Clearlake Capital.

Chelsea er sem stendur í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 39 stig að loknum 27 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×