Fótbolti

Stefán skoraði og Mikael lagði upp er liðin skildu jöfn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stefán Teitur skoraði opnunarmark leiksins
Stefán Teitur skoraði opnunarmark leiksins vísir/Getty

Stefán Teitur Þórðarsson skoraði og Mikael Neville Anderson lagði upp mark í 2-2 jafntefli Silkeborg og AGF í dönsku úrvalsdeildinni. 

Mark Stefáns fyrir Silkeborg kom strax á 3. mínútu leiksins, hann keyrði þá upp völlinn og battaði boltann á Tonni Adamsen áður en hann slúttaði með laglegri vippu yfir markvörð AGF. 

Mikael Neville Anderson var á vinstri vængnum hjá AGF og lagði upp fyrra jöfnunarmarkið rétt fyrir hálfleikslok. Mikael gaf góða fyrirgjöf á fjærstöngina, Felix Beijmo reis hæstur og stangaði boltann í slánna og inn. 

Felix Beijmo var svo aftur á ferðinni og kom AGF yfir á 63. mínútu, þá eftir góðan undirbúning Magnus Knudsen.

Callum McCowatt sá til þess að Silkeborg hirti stig þegar hann jafnaði leikinn á 71. mínútu eftir stoðsendingu Oliver Sonne. 

AGF er í 5. sæti deildarinnar með 37 stig, Silkeborg sæti neðar með 28 stig. Möguleikar á titlinum eru ansi litlir en AGF gæti blandað sér í baráttuna um efstu þrjú sætin sem gefa þátttökurétt í Evrópukeppni. FCK er í 3. sæti eins og er með 45 stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×