Fótbolti

„Okkur langaði bara í meira“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir stóð vaktina í vinstri bakverðinum vel í kvöld.
Sædís Rún Heiðarsdóttir stóð vaktina í vinstri bakverðinum vel í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

„Við ætluðum okkur að byrja sterkt og hafa þetta í okkar höndum. 3-0 og hreint lak, það er varla hægt að biðja um meira“ sagði Sædís Rún Heiðarsdóttir, bakvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, eftir öruggan 3-0 sigur gegn Pólverjum í kvöld.

Pólska liðið náði að skapa sér færi í upphafi leiks, en Sædís segist aldrei hafa haft áhyggjur af því að íslenska liðið myndi lenda í basli í kvöld.

„Mér persónulega leið ekki illa og ég vissi að við myndum fá færi. Auðvitað fengu þær líka sín færi, en okkur tókst að koma boltanum í netið og það er það sem þetta snýst um. Eins og ég segir er 3-0 bara geggjað og eftir að við skorum þetta fyrsta mark fannst mér þetta engin spurning.“

Þá segir hún einnig mikilvægt fyrir íslenska liðið að hafa náð að bæta öðru markinu við strax í kjölfar þess fyrsta.

„Virkilega sterkt að ná þessu inn strax eftir fyrsta markið og auðvitað gefur það okkur meira. Það er miklu betra að hafa 2-0 forystu en 1-0 forystu því það er stutt á milli í þessu. 2-0 er auðvitað það sem maður kýs.“

Sveindís Jane Jónsdóttir bætti svo þriðja marki Íslands við tiltölulega snemma í seinni hálfleik og segir Sædís að það hafi endanlega drepið leikinn.

„Mér fannst við í rauninni eiginlega drepa þetta bara eftir fyrsta markið og eftir annað markið hafði maður aldrei áhyggjur. En það er stutt á milli í þessu og maður þarf að vera vakandi þannig það var virkilega sterkt að ná í 3-0 heimasigur.“

Sædís segir það einnig hafa verið gott að sjá að íslenska liðið tók fótinn aldrei af bensíngjöfinni þrátt fyrir að vera komið með þriggja marka forskot.

„Persónulega langaði mig bara í meira. Kannski hefði maður þurft að halda betur í boltann stundum en okkur langaði bara í meira. En eins og ég segi er 3-0 bara flott.“

Hún segir sigurinn vera mikilvægt og gott veganesti inn í næsta leik liðsins, gegn Þjóðverjum á þriðjudaginn.

„Ég held að ef að við spilum okkar leik þá eigum við séns í öll lið. Þannig að mér finnst þetta bara undir okkur komið,“ sagði Sædís að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×