Íslenski boltinn

„Fram­hald af því sem við höfum verið að gera á undir­búnings­tíma­bilinu“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson og Blikar unnu góðan sigur.
Höskuldur Gunnlaugsson og Blikar unnu góðan sigur. Vísir/Anton Brink

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, var einkar sáttur með 2-0 sigur liðsins á FH í 1. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Þá var hann sérstaklega sáttur með að halda hreinu.

„Þetta var bara flott, fannst við massífir en oft verið meira flæði í okkur til lengri tíma. Inn á milli sýndum við flottar rispur, vorum hættulegir fram á við ásamt því að vera með stjórn á leiknum með og án bolta,“ sagði fyrirliðinn við Gunnlaug Jónsson að leik loknum.

„Þeir komu inn af meiri orku í seinni hálfleik,“ sagði Höskuldur og nefndi breytinguna sem Heimir Guðjónsson gerði en Björn Daníel Sverrisson og Finnur Orri Margeirsson komu inn á miðjuna.

„Finnur Orri og Björn Daníel eru fullvaxta karlmenn. Við vorum hins vegar með á nótunum, köstuðum okkur fyrir skot, skölluðum fyrirgjafir í burtu og svo var Anton Ari (Einarsson, markvörður Breiðabliks) með allt í lás.“

„Þetta var bara framhald af því sem við erum búnir að vera gera á undirbúningstímabilinu. Vorum massífir varnarlega.“

Þá sagði Höskuldur það ýta við Blikum að sjá önnur lið styrkja sig. Jafnframt sagði hann ómögulegt að spá fyrir um hvaða lið verði í toppbaráttunni þegar það eru 26 umferðir eftir en þar ætli Blikar sér svo sannarlega að vera.

„Fagna því almennt að það sé verið að hækka ránna, það er bara fagnaðarefni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×