Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins um hlutafjárútboðið sem stóð yfir 9. til 11. apríl. Play hefur því safnað um 4,6 milljörðum króna frá því tilkynnt var um fyrirhugaða fjármögnunarlotu 8. febrúar.
„Til að tryggja jafnræði hluthafa var ákveðið að efna til almenns hlutafjárútboðs á allt að 111.111.112 hlutum á áskriftargenginu 4,5 kr. á hvern hlut – samanlagt 500 m.kr.“ segir í tilkynningunni.
Þar segir að alls hafi borist áskriftir að fjárhæð um 105 milljónum króna, eða rétt rúmlega tuttugu prósent af þeim hlutum sem voru boðnir út.
Í tilkynningunni segir að fjárfestum verði tilkynnt um endanlega úthlutun mánudaginn 15. apríl og að fyrirhugaður greiðsludagur sé 23. apríl.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY, sagðist ánægður með niðurstöðu fjármögnunarlotunnar þar sem hún hafi verið talsvert yfir þeirri fjárhæð sem þau ráðgerðu í upphafi að safna. Niðurstaðan sé góð samblanda af þátttöku núverandi hluthafa og nýrra hluthafa sem m.a. samanstandi af stofnanafjárfestum og öflugum fjárfestingafélögum.