Fótbolti

Andri Lucas að­eins nokkrar mínútur að halda upp á nýja samninginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen er kominn með tíu mörk fyrir Lyngby Boldklub í dönsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.
Andri Lucas Guðjohnsen er kominn með tíu mörk fyrir Lyngby Boldklub í dönsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Getty/ Jan Christensen /

Íslenski landsliðsmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen var á skotskónum með Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Mark hans dugði þó ekki til

Lyngby tapaði 2-1 á móti Viborg á útivelli en liðin eru í neðri hluta úrslitakeppni dönsku deildarinnar.

Viborg náði þar með átta stiga forskoti á Lyngby og svo gott sem gulltryggði sæti sitt í deildinni. Lyngby situr í síðasta örugga sætinu, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Þrír Íslendingar voru í byrjunarliði Lyngby í leiknum, Andri Lucas, Sævar Atli Magnússon og Kolbeinn Finnsson.

Lyngby gekk frá kaupunum á Andra Lucas í vikunni en hafði verið á láni hjá liðinu frá Norrköping. Hann skrifaði undir nýjan þriggja ára samning og var fljótur að halda upp á hann.

Andri Lucas kom Lyngby yfir eftir aðeins rúmlega þriggja mínútna leik. Magnus Jensen skallaði hornspyrnu til hans og Andri kom boltanum í netið.

Þetta var tíunda deildarmark Andra fyrir Lyngby á leiktíðinni en hann hafði fengið fá tækifæri með Norrköping í Svíþjóð. Andri hefur aftur á móti verið frábær með danska liðinu.

Viborg jafnaði metin á 25. mínútu leiksins með marki Anosike Ement. Í seinni hálfleiknum kom Magnus Westergaard Viborg síðan yfir í 2-1 á 76. mínútu.

Sævar Atli var tekinn af velli á 69. mínútu en þá var staðan 1-1. Andri og Kolbeinn kláruðu leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×