Í yfirlýsingu frá PLAY segir að ónákvæmur fréttaflutningu erlendis um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafi haft neikvæð áhrif á eftirspurn eftir flugi til Íslands og þar með á rekstarniðurstöðu félagsins.
Lausafjárstaða PLAY var 2,4 milljarðar króna í lok ársfjórðungsins. Síðan þá lauk PLAY hlutafjáraukningu þar sem söfnuðust um 4,5 milljarðar.
Áhugasamir geta séð frekari upplýsingar hér í yfirlýsingu PLAY til Kauphallarinnar.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY, segir í yfirlýsingunni að rekstrarniðurstaðan hafi verið í takt við áætlanir og niðurstaðan sé mörkuð af áðurnefndum fréttaflutningi.
„En þrátt fyrir rekstrarniðurstöðuna sáum við jákvæð merki bæði í flugrekstri og sölu. Eftirspurnin tók hraustlega við sér í janúar og við slógum eigin sölumet á fyrsta ársfjórðungi sem hefur leitt af sér góða bókunarstöðu fram í tímann,“ segir Einar.
„Við reynum eftir fremsta megni að halda kostnaði lágum svo við getum boðið samkeppnishæf verð til neytenda. Á fyrsta ársfjórðungi 2024 lækkaði kostnaður við hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) um 8%, samanborið við fyrsta ársfjórðung 2023, og þá þróaðist kostnaður að undanskildu eldsneyti einnig í rétta átt. Áherslur okkur munu áfram snúast um að sýna ráðdeild í rekstri.“
Hann segir fyrsta ársfjórðung hvers árs geta verið afar krefjandi í flugrekstri vegna veðurástæðna á Íslandi og því sé ánægjulegt að stundvísi PLAY hafi mælst 87,8 prósent á tímabilinu.
„Þessi árangur er alfarið afrakstur þrotlausrar vinnu samstarfsfólks míns hjá PLAY sem á allt hrós skilið fyrir frábær störf.
Við lukum einnig hlutafjárútboði í fyrsta ársfjórðungi þar sem söfnuðust 32 milljónir bandaríkjadollara, sem jafngildir um 4,6 milljörðum íslenskra króna. PLAY státar því af góðri fjárhagsstöðu sem gerir félaginu kleift að ná markmiðum sínum.
Fyrir höndum er sumarvertíðin sem öllu máli skiptir í rekstri flugfélaga og ég hlakka virkilega til þess annasama tíma þar sem við hjá PLAY munum kappkosta við að veita farþegum okkar framúrskarandi þjónustu.“