Sport

„Eru að gefa fólki pening sem á þegar pening“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Redgrave með Ólympíugullverðlaunin sín fimm sem hann vann á leikunum 1984, 1988, 1992, 1996 og 2000.
Steve Redgrave með Ólympíugullverðlaunin sín fimm sem hann vann á leikunum 1984, 1988, 1992, 1996 og 2000. Getty/Shaun Botterill

Steve Redgrave er fimmfaldur Ólympíumeistari en hann er ekki hrifinn af því að Alþjóða frjálsíþróttasambandið ætli að verðlauna gullverðlaunahafa sína á Ólympíuleikunum í París með peningagjöf.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur gefið það út að gullverðlaunahafar á leikunum í París í sumar munu fá fimmtíu þúsund dollara í verðlaunafé eða sjö milljónir íslenskra króna.

„Þetta býr til ‚við á móti þeim' aðstæður. Ég er á móti því,“ sagði Steve Redgrave við breska ríkisútvarpið en frjálsar íþróttir eru eina íþróttagreinin sem ætlar að verðlauna Ólympíumeistara sína. Redgrave segir að slíkt skapi óeiningu meðal íþróttafólksins.

Hingað til hefur heiðurinn af því að vinna Ólympíugullið þótt vera mikið meira en nóg en svo er ekki lengur. Redgrave vann gullverðlaun í róðri á fimm leikum í röð frá 1984 til 2000 en hann er nú 62 ára gamall.

Þetta verður í fyrsta skiptið í sögu Ólympíuleikanna sem gullverðlaunahafar fá slíkt verðlaunafé. Ólympíumeistarar hafa vissulega grætt pening á sigrum sínum í formi auglýsingasamninga og styrkja en aldrei fengið verðlaunafé.

48 gull eru í boði í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum í París í sumar. Alþjóða frjálsíþróttasambandið ætlar síðan að taka upp á því að verðlauna líka silfur- og bronshafana á leikunum í Los Angeles 2028.

„Öll þau sem vinna gull á Ólympíuleikunum fá möguleika til þess að græða mikinn pening bæði fyrir og eftir leikana í París. Þau eru að gefa fólki pening sem á þegar pening,“ sagði Redgrave.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×