Í nótt voru rúður brotnar á staðnum Just Kebab. Artush var mæðulegur þegar Vísir ræddi við hann nú undir hádegi en þá voru menn í óða önn að setja nýtt rúðugler í gluggana. Skemmdarvargurinn var iðinn við kolann og braut allar rúður staðarins.
„Já, hann var aftur á ferð í nótt,“ segir Artush. „Sami maðurinn geri ég ráð fyrir en hann hefur komið tvisvar.“
Vísir greindi frá því og þá virtist ljóst að um væri að ræða sama aðila og hefur verið að brjóta rúður á matvöruverslun á Skólavörðustíg, ummerkin voru þau sömu.
Artush segist ekki vita hver þetta er. Hann segist hafa verið á Íslandi í sjö ár og án vandræða, hann hafi ekki átt í útistöðum við neinn.
„Ég er að nú að leita að þessum manni alls staðar. Og ég mun finna hann. Og fara með hann á lögreglustöðina.“
Arthush segir að lögreglan hafi verið kölluð til, hún hafi tekið skýrslu en svo ekki aðhafst neitt í málinu.

„Ég veit ekki hvað er í gangi,“ segir Artush og gefur lögreglunni ekki háa einkunn. „Ég væri ekki að hringja í lögguna ef ég vissi hver þetta væri. Ég myndi bara fara með manninn sjálfur á lögreglustöðina. Ég mun finna hann.“
Artush segir þetta mál óskiljanlegt, mjög skrítið að hann skuli þurfa að eiga við raðrúðubrjót eða serial „window crasher“ en þessi er staðan í dag.