Þessi tíðindi hafa legið í loftinu síðustu mánuði og Mbappé staðfesti loks á samfélagsmiðlum í kvöld að hann myndi yfirgefa PSG í sumar. Hann leikur sinn síðasta heimaleik fyrir PSG á sunnudaginn. Liðið mætir þá Toulouse. PSG hefur þegar tryggt sér franska meistaratitilinn.
MERCI. 🔴🔵 @PSG_inside pic.twitter.com/t0cL2wPpjX
— Kylian Mbappé (@KMbappe) May 10, 2024
Allar líkur eru á því að Mbappé gangi í kjölfarið til liðs við Spánarmeistara Real Madrid.
Mbappé kom til PSG frá Monaco 2017. Hann er markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 255 mörk.
Á sjö tímabilum hjá PSG hefur Mbappé sex sinnum unnið franska meistaratitilinn. Honum tókst þó ekki að vinna Meistaradeild Evrópu með liðinu. Það var ljóst eftir 0-1 tap fyrir Borussia Dortmund í seinni leik liðanna í undanúrslitum keppninnar á þriðjudaginn.
Verðandi samherjar Mbappés í Real Madrid mæta Dortmund í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley 1. júní.