Fótbolti

Orri mikil­vægur gegn erki­ó­vinum og FCK á toppinn

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson lagði upp mark gegn Bröndby í dag.
Orri Steinn Óskarsson lagði upp mark gegn Bröndby í dag. Getty/Ulrik Pedersen

Eftir fjóra sigra í röð hefur FC Kaupmannahöfn laumað sér, nánast „bakdyramegin“ upp í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir.

FCK vann erkifjendur sína í Bröndby á útivelli í dag í spennuþrungnum leik, 3-1, og Orri Steinn Óskarsson var með í því.

Bröndby skoraði fyrsta markið eftir hálftíma leik, en FCK jafnaði fljótt og átti Orri stóran þátt í því þegar hann lagði boltann á Kevin Diks sem skoraði.

Mohamed Elyounoussi kom FCK svo yfir á 54. mínútu og þannig var staðan þar til seint í uppbótartíma þegar Kevin Tshiembe hjá Bröndby var rekinn af velli með rautt spjald, og Diks bætti við marki úr vítaspyrnu sem dæmd var.

Úrslitaleikur á fimmtudaginn?

Sigurinn fleytti FCK upp fyrir Bröndby og á topp deildarinnar þar sem FCK er nú með 58 stig, tveimur meira en Bröndby og þremur meira en Midtjylland sem nú á í höggi við AGF. Markatala FCK er tíu mörkum betri en Midtjylland.

Næsti leikur gæti ráðið úrslitum í titilbaráttunni en FCK og Midtjylland, með Sverri Inga Ingason innanborðs, mætast á fimmtudaginn.

Rúnar Alex Rúnarsson sat á varamannabekk FCK í dag og bíður enn eftir fyrsta leik sínum fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×