Bekkurinn var þéttsetinn í Skálholti síðdegis í gær þegar prests- og djáknavígslan fór fram að viðstöddum vígsluvottum. Skálholtskórinn söng, Jón Bjarnason var organisti og þeir Jóhann Ingi Stefánsson og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson spiluðu á trompet.
Vígslubiskupinn í Skálholti brá sér í hlutverk Biskups Íslands í athöfninni enda hafði biskup falið Kristjáni Björnssyni að sjá um vígsluna í hennar stað. Hann þurfi meðal annars að tala á latínu.
„Já, ég tónaði hana bara til að heilagur andi heyrði betur,” segir Kristján.
Og nýju djáknarnir eru ánægðir með að vera orðnir formlega vígðir inn í kirkjustarf þjóðkirkjunnar.
„Við erum vígð til kærleiksþjónustu í kirkjunni en hún felst í öllu mögulegu eins og barnastarf, eldri borgara starf, fræðsla og allt mögulegt,”segir Bergþóra Ragnarsdóttir, nýr djákni í Skálholtskirkju.
Þannig að þið eruð alsæl með þetta?
„Já, já, við erum mjög auðmjúk og þakklát. Þetta var falleg athöfn segir Ívar Valbergsson, nýr djákni í Keflavíkurkirkju.

Og nýju prestarnir hlakka líka til að taka formlega til starfa innan kirkjunnar.
„Við fáum að fylgja fólki í blíðu og stríði og í sorg og gleði. Ég held að það sé það skemmtilegasta við starfið”, segir Steinunn Anna Baldvinsdóttir, nýr prestur í Seljakirkju.
„Og fólkið, sem maður fær að þjóna og kynnast,” bætir Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir við en hún er nýr prestur í Lágafellskirkju
Hver verða fyrstu embættisverkin?
„Ég á að skíra eftir nokkrar vikur, það er bókuð skírn, ætli það verði ekki mitt fyrsta verk,” segir Steinunn Anna. „Ég er að fara að taka upp útvarpsmessu, þannig að það er nóg að gera,” segir Guðlaug Helga.

