Félagasamtökin Solaris halda utan um söfnunina fyrir konurnar en frá því að þær komu til Nígeríu hafa konurnar verið aðstoðaðar með gistingu og mat. Konurnar hafa allar lýst því að vera þolendur mansals.
Sema Erla Serdaroglu formaður samtakanna segir í samtali við fréttastofu að upphæðirnar séu fljótar að safnast saman. Eins og stendur sé verið að aðstoða þær um tugi þúsunda á hverjum degi.
„Það er hópur fólks sem gat ekki annað en reynt að aðstoða þær með öllum þeim leiðum sem hægt er. Við höfum verið í sambandi við þær og reynum að heyra reglulega í þeim. Þetta er svo átakanlega erfið staða. Eðlilega er vonleysið og eymdin mjög mikil. Þær voru sendar úr landi án peninga og skilríkja og fengu aðeins að taka hluta af dóti sínu með sér,“ segir Sema og að við komuna til Nígeríu hafi þeim því verið erfitt að leita sér aðstoðar.
„Það er hrikalegt að horfa upp á þetta. Við virðumst ekki vera skjól fyrir konur sem hafa upplifað slíkt hrottalegt ofbeldi eins og nauðgunarmansal er og þær hafa þurft að þola um árabil. Það er einhver þróun í gangi sem maður hræðist og það virðist vera að okkar skyldur til að veita fólki í neyð vernd nái ekki einu sinni lengur til þeirra sem eru í sem allra verstu stöðu og í mestri þörf.“.
Skoða hvaða möguleikar standa konunum til boða
Talskona Stígamóta sagði stuttu eftir brottvísun kvennanna að starfsfólk samtakanna ynni að því að koma þeim að hjá einhverju athvarfi í Lagos í Nígeríu. Sema segir að með aðstoð fólks úti séu þau að skoða hvaða möguleikar standi konunum til boða. Þær þurfi mikinn stuðning vegna langrar áfallasögu.
„Það er einhver hreyfing á málum og vonandi verður hægt að koma þeim í skjól til lengri tíma. En það er ekki án kostnaðar,“ segir hún og að þess vegna hafi þau sett af stað söfnun.
Hún segir ekki gera sér grein fyrir því hversu mikið þau þurfa en þær muni þurfa á stuðning halda í einhvern tíma.
Spurð um aðstæður í Lagos segir Sema þær vonlausar fyrir þessar konur. Þær hafi komið þangað án skilríkja, peninga og nokkurs baklands. „Þetta er algjörlega vonlaus staðar og þess vegna skilur maður ekki af hverju þær voru sendar þangað. En þetta var vitað. Að þetta yrði svona,“ segir Sema.
Hefur ekki fengið læknisaðstoð frá komu
Fjallað var um það fyrir brottvísun kvennanna að ein þeirra, Blessing Uzoma Newton, væri mjög veik vegna æxlis í kviðarholi. Læknir á Landspítalanum sagði hana ekki ferðafæra. Sema segir Blessing ekki hafa fengið neina læknisaðstoð frá því hún kom til Lagos.
„Þær eru ekki einu sinni með persónuskilríki og hafa ekkert í höndunum. Þau eru fá orðin eftir sem maður hefur til að lýsa þessum hryllingi sem er að eiga sér stað í málefnum flóttafólks hér á landi.“
„Við sjáum ekki fyrir endann á þessu og allur stuðningu er því vel þeginn. Hann er þeim lífsnauðsynlegur.“
Brottflutningurinn hefur verið nokkuð gagnrýndur vegna þessa. Jódís Skúladóttir, þingkona Vinstri grænna, óskaði þess í síðustu viku að fulltrúar Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Kærunefndar útlendingamála kæmu fyrir nefnd til að ræða málið.