Fjallað er um málið á vef Guardian í dag en rannsóknina hóf Bensouda árið 2021. Henni lauk svo í síðustu viku þegar eftirmaður hennar, Karim Khan, tilkynnti að hann vildi gefa út handtökuskipun á hendur forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, vegna aðgerða hans á Gasa. Auk hans óskaði hann eftir því að gefin yrði handtökuskipun á hendur varnarmálaráðherra Ísrael, Yoav Gallant, og á hendur þriggja leiðtoga Hamas.
Á frétt Guardian segir að leynilegir fundir Cohen með Bensouda hafi farið fram í aðdraganda þess að hún ákvað að hefja formlega rannsókn á meinta stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni í Palestínu. Þar kemur einnig fram að aðkoma hans að þessu hafi verið samþykkt á „efsti stigum“ og réttlætt með því að rannsóknin gæti stefnt starfsmönnum hersins í hættu. Þetta er haft eftir hátt settum ísraelskum embættismanni.
Haft er eftir öðrum ísraelskum heimildarmanni að markmið Mossad, leyniþjónustunnar, hafi verið að koma óorði á Bensouda eða að fá hana til að vera samvinnuþýða. Þriðji heimildarmaðurinn segir svo að Cohen hafi verið „óformlegur sendiboði“ Netanyahu. Þá kemur fram í frétt Guardian að fjórir ólíkir heimildarmenn hafi staðfest við fjölmiðilinn að Bensouda hafi tilkynnt litlum hópi hátt settra embættismanna hjá dómstólnum að Cohen hafi reynt að hafa áhrif á hana og ákvörðun hennar um að hefja rannsókn.
Sat um hana og veitti henni eftirför
„Þú ættir að hjálpa okkur og leyfa okkur að hugsa um þig. Þú vilt ekki blanda þér í hluti sem gætu stofnað öryggi þínu eða fjölskyldu þinnar í hættu,“ er eitthvað sem Cohen á að hafa sagt við Bensouda á einum tímapunkti. Þá segir í frétt Guardian að hann hafi notað ýmsar aðferðir til að hrella hana og það hafi jaðrað við að hann hafi veitt henni eftirför [e. stalking].
Þá hafi leyniþjónustan fylgst með fjölskyldu hennar og sérstaklega eiginmanni hennar og reynt að nota það gegn henni.
Slíkar hótanir og þrýstingur á saksóknarann geta samkvæmt lögfræðingum og sérfræðingum dómstólsins talist brot á Rómarsáttmálanum, sáttmálinn sem stofnaði dómstólinn.
Umfjöllun Guardian er nokkuð ítarleg og löng og er þar einnig fjallað um aðkomu annarra að þessu máli, eins og fyrrverandi forseti Kongó, Joseph Kabila. Kabila kom því í kring að Cohen kom óvænt inn á hótelherbergi í New York, þar sem Bensouda og Kabila höfðu fundað.
Umfjöllunin er hluti af rannsókn fjölmiðilsins í samvinnu við palestínskan fjölmiðil +972 Magazine og Local Call sem er fjölmiðill á hebresku.
Helsti bandamaður forsætisráðherrans
Rannsókn þeirra lýtur að því hvernig ísraelska leyniþjónustan herjaði stríð gegn Alþjóðasakamáladómstólnum í um áratug. Hvorki Bensouda né Cohen vildu svara spurningum þeirra og ísraelsk yfirvöld sögðu spurningar þeirra fullar af fölsum og tilhæfulausum staðhæfingum sem væri ætlað að skaða Ísraelsríkið.
Cohen var á þeim tíma sem fjallað er um einn helsti bandamaður hans. Cohen er sjálfur að koma fram sem stjórnmálaafl í Ísrael en í frétt Guardian segir að um áratugaskeið hafi hann leitt aðgerðir leyniþjónustunnar sem áttu að veikja dómskerfið í Ísrael.
Bensouda hætti hjá dómstólnum árið 2021 og þá tók Karim Khan við sem nú, eins og kom fram að ofan, leiðir rannsókn dómstólsins og hefur óskað eftir leyfi til að gefa út handtökuskipanir á leiðtoga í Ísrael og Hamas vegna átaka á Gasa.