Skoðun

Það er ein­falt að vera kosninga­stjóri Höllu Tómas­dóttur

Vigdís Jóhannsdóttir skrifar

Þótt ég hafi alist upp í kringum pólitík þá er þetta aðeins í annað skiptið sem ég tek beinan þátt í slíku ævintýri. Ástæðan er einföld. Þó að samfélagið og samfélagsleg mál skipti mig miklu máli þá hef ég í gegnum tíðina orðið vitni að því þegar misvönduðum meðölum er beitt í kosningabaráttu gegn góðu fólki sem gengur gott eitt til. Fólki sem vill af heilum hug láta gott af sér leiða. En þegar Halla Tómasdóttir bauð sig fram fyrir átta árum og aftur núna gef ég mig alla í verkefnið. Af því að Ísland þarf á sterkum leiðtoga að halda sem getur staðið í fæturnar þegar gefur á bátinn og getur haldið öllu því góða sem hér er að finna á lofti þegar vel gengur. Ísland á það skilið.

Hlutverk kosningastjóra Höllu Tómasdóttur er í raun einfalt. Það þarf ekkert að þjálfa, tengja, fara yfir umræðupunkta eða taka til í fortíðinni. Það þarf einfaldlega að tryggja að sem flestir hitti Höllu og hennar yndislega eiginmann Björn Skúlason. Það er stóra verkefnið. Halla veit hver hún er og fyrir hvað hún stendur. Hún skuldar engum neitt og gefur kost á sér af einlægum vilja til að virkja reynslu sína og tengslanet fyrir land og þjóð. Á góðum stundum sem og erfiðum mun hún hafa skýra sýn á hvaða skref þarf og á að taka.

Mér er það bæði ljúft og skylt að styðja við framboð Höllu Tómasdóttur og geri allt sem í mínu valdi stendur til að koma henni á Bessastaði því Ísland og Íslendingar eiga allt gott skilið. Þeir eiga skilið góðan forseta sem hefur reynslu og þekkingu, forseta sem hlustar og sameinar, forseta sem mun styðja og styrkja okkur sem þjóð bæði innanlands og utan. Halla er sannur leiðtogi og brúarsmiður sem hefur brunnið fyrir jafnrétti, frið og Íslandi alla tíð. Halla er ekki orðin tóm heldur hefur látið rækilega til sín taka hér heima og á alþjóðasviðinu.

Stolt styð ég Höllu Tómasdóttur til embættis forseta Íslands enda er hún draumur kosningastjórans. Ég treysti engum betur.

Höfundur er kosningastjóri Höllu Tómasdóttur.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×