Fótbolti

Fannst að­stoðar­maðurinn vinna gegn sér: „Til­finning á móti til­finningu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson segist ekki vita hvað framtíðin ber í skauti sér.
Óskar Hrafn Þorvaldsson segist ekki vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Vísir/Hulda Margrét

Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur tjáð sig í fyrsta sinn um ástæðu þess að hann hætti sem þjálfari Haugesund í Noregi. Honum fannst aðstoðarmaður sinn hjá liðinu vinna gegn sér.

Mikla athygli vakti þegar Óskar Hrafn hætti þjálfun Haugesund fyrr í þessum mánuði. Hann tók við liðinu í október í fyrra.

Óskar Hrafn er sérfræðingur hjá Stöð 2 Sport um leik síns gamla liðs, Breiðabliks, og Víkings í Bestu deild karla í kvöld. Í upphafi útsendingarinnar spurði Ríkharð Óskar Guðnason hann út í viðskilnaðinn við Haugesund.

„Stutta svarið er það að mér fannst ekki allir ganga í takt hjá félaginu. Mér fannst ég feta annan veg heldur en margir aðrir þarna. Á endanum komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri best fyrir mig að fara,“ sagði Óskar Hrafn.

„Þetta snerist svolítið um að þú heldur á einhverju sverði og fellur á það eða heldur á því. Ég hafði áhuga á að það væri mitt sverð en ekki það sem einhver setti í höndina á mér. Ég mat það þannig að það væri best að fara.“

Hann myndi segja annað

Í norskum fjölmiðlum var talað um að Óskar Hrafn hafi ekki verið sáttur við aðstoðarþjálfara Haugesund, Sancheev Manoharan, og fundist hann vinna gegn sér. Óskar Hrafn játaði það þegar Ríkharð spurði hann út í það fyrir leikinn á Kópavogsvelli.

„Jájá, það var mín tilfinning. Ef þú myndir spyrja hann myndi hann segja eitthvað annað. Þetta er tilfinning á móti tilfinningu,“ sagði Óskar Hrafn. 

„Menn verða bara að bera virðingu fyrir því hvernig mér leið og hvaða tilfinningu ég hafði fyrir þessu verkefni á þeim tímapunkti sem ég tók þessa ákvörðun. Það er svosem ekkert meira um það að segja.“

Manoharan er nú tekinn við Haugesund sem situr í 9. sæti norsku úrvalsdeildarinnar með þrettán stig eftir tíu leiki. Tveir Íslendingar leika með liðinu; Anton Logi Lúðvíksson og Hlynur Freyr Karlsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×