Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings að á morgun verði heldur hægari vindur. Í flestum landhlutum verður væta en bjart með köflum. Á Austurlandi verður yfirleitt þurrt. Þar verður einnig hlýjast, hiti upp í 16 til 19 stig, en 8 til 14 í öðrum landshlutum. Nánar á vef Veðurstofunnar.
Á sunnudag er spáð ákveðinni vestanátt með skúraleiðingum, þó síst suðaustanlands. Þá kólnar heldur í veðri.
Víðast hvar er greiðfært um landið en gott er að huga að stöðu færðar á vef Vegagerðar.
Gasmengun frá eldgosi
Gasmengun berst í suðvestlægri átt til norðausturs og gæti hennar orðið vart í Ölfusi og á höfuðborgarsvæðinu.
Talsverð óvissa er með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Suðvestan 5-13 m/s. Bjart með köflum austanlands, annars skýjað og dálítil væta. Hiti 8 tll 18 stig, hlýjast eystra.
Á sunnudag (sjómannadagurinn):
Vestan og suðvestan 8-15 og skúrir, en úrkomulítið suðaustan til. Hiti 6 til 13 stig.
Á mánudag:
Norðvestanátt og skúrir eða slydduél norðanlands, en þurrt sunnan heiða. Hiti 2 til 10 stig, mildast syðst.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Stíf norðanátt. Rigning eða slydda, einkum á Norður- og Norðausturlandi, en úrkomulítið sunnanlands. Svalt í veðri.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir norðanátt með lítils háttar skúrum eða slydduéljum á norðanverðu landinu.