Fótbolti

Mbappe búinn að skrifa undir hjá Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe spilar með Real Madrid á næstu leiktíð.
Kylian Mbappe spilar með Real Madrid á næstu leiktíð. Getty/Arturo Holmes

Verst geymda leyndarmál fótboltans er nú endanlega komið fram í dagsljósið. Kylian Mbappe hefur skrifað undir samning við spænska stórliðið Real Madrid. Evrópskir fjölmiðlar segja frá þessu.

Mbappe kemur til Real á frjálsri sölu þar sem samningur hans við Paris Saint-Germain rennur úr 30. júní næstkomandi.

Mbappe hefði gert munnlegt samkomulag við Real Madrid í febrúar og tilkynnti það síðan í maí að hann myndi yfirgefa París um leið og samningur hans kláraðist.

Breska ríkisútvarpið segir að búist sé við að Real Madrid tilkynni um samninginn í næstu viku. Leikmaðurinn verður síðan kynntur formlega á Bernabeu eftir Evrópumótið í Þýskalandi þar sem Mbappe verður í aðalhlutverki með franska landsliðinu.

Real Madrid tryggði sér sigur í Meistaradeildinni í gær og er nú að fá til sín enn allra besta fótboltamann heims. Mbappe hefur skorað flest mörk allra í sögu PSG eða 256 talsins en hann kom til félagsins frá Mónakó árið 2017.

Samingur Mbappe við Real Madrid er til ársins 2029 og BBC segir að hann fái fimmtán miljónir evra í árslaun auk fimmtán milljónum í undirskriftarbónus sem verður skipt niður á fimm ár.

Fimmtán milljónir evra eru meira en 2,2 milljarðar í íslenskum krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×