Enski boltinn

Fyrr­verandi leik­maður Arsenal og Everton al­var­lega veikur á spítala

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Campbell í leik með Arsenal.
Kevin Campbell í leik með Arsenal. getty/Mark Leech

Kevin Campbell, fyrrverandi leikmaður Arsenal, Everton og fleiri liða, liggur alvarlega veikur á spítala.

Everton greindi frá veikindum hins 54 ára Campbells í gær. Í tilkynningu félagsins segir að hann hafi veikst í síðustu viku og honum eru sendar baráttukveðjur.

Campbell er uppalinn hjá Arsenal og varð Englandsmeistari með liðinu 1991. Hann vann einnig ensku bikarkeppnina, deildabikarinn og Evrópukeppni bikarhafa með Skyttunum.

Eftir að hafa leikið með Nottingham Forest og Trabzonspor í Tyrklandi var Campbell lánaður til Everton seinni hluta tímabilsins 1998-99. Hann skoraði níu mörk í síðustu átta leikjum liðsins og átti stóran þátt í að það bjargaði sér frá falli.

Campbell lék með Everton til 2005. Hann spilaði svo fyrir West Brom og Cardiff City áður en ferlinum lauk 2007.

Campbell er sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk í ensku úrvalsdeildinni án þess að spila landsleik fyrir England.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×