Innlent

Segir lög­regluna varla ráða við nú­verandi valdheimildir

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna gerði störf lögreglu að umfjöllunarefni í ræðu sinni á Alþingi í dag.
Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna gerði störf lögreglu að umfjöllunarefni í ræðu sinni á Alþingi í dag. Vísir/Vilhelm

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag að það vekti með henni ugg að lesa „nær daglega“ fréttir af lögreglu sem fara offari í aðgerðum sínum og beiti almenna borgara valdi og hörku.

Hún vísaði meðal annars í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmdi á dögunum ungan lögreglunema í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi en umræddur lögreglunemi beitti úðavopni. Fréttastofa greindi frá niðurstöðu dómsins í dag.

Jódís rifjaði þá upp hvernig slíku úðavopni hafi verið beitt þegar mótmælendur komu saman fyrir utan ríkisstjórnarfund í síðustu viku en þeir voru að reyna að þrýsta á ríkisstjórnina til að beita sér fyrir vopnahléi á Gasa.

Jódís sagði að reglulega væri kallað eftir auknum heimildum fyrir lögreglu sem fælu þá í sér að mega bera vopn eða hafa aukið eftirlit með almennum borgurum.

„Ég spyr mig hvort lögregla sem virðist nú þegar vera í vanda við að ráða við þær heimildir sem hún hefur í dag hafi við meira vald og heimildir að gera.“

Hún bætti við að almennir borgarar óttuðust nú að nýta lýðræðislegan og stjórnarskrárvarinn rétt til að mótmæla hér á landi og spurði hvers virði drengskaparheit lögreglumanna væru þegar raunin væri þessi.


Tengdar fréttir

Þakkar fyrir að hafa ekki þurft að beita kylfum

Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að vel hafi gengið að vinna bug á mótmælum við ríkisstjórnarfund í morgun. Þau hafi verið agressív. Lögregla hafi reynt að beita vægari úrræðum og sem betur fer ekki þurft að beita kylfum.

„Við viljum ekki fá á okkur orð fyrir að vera ein­hverjir hrottar“

Formaður Landssambands lögreglumanna vonar að dómur yfir lögreglumanni vegna brots í starfi sýni fólki að fylgst sé með lögreglumönnum og þeir komist ekki upp með hvað sem er. Lögreglumaðurinn fékk 30 daga skilorðsbundinn dóm í héraðsdómi í gær, og hefur ekki starfað fyrir lögreglu frá því málið kom upp. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×