Fótbolti

Meiðslalisti ís­lenska lands­liðsins lengist enn frekar

Aron Guðmundsson skrifar
Åge Hareide, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta
Åge Hareide, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta Vísir/Egill

Åge Hareide, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, hefur neyðst til þess að gera frekari breytingar á landsliðshópnum fyrir komandi leiki Íslands gegn Englandi og Hollandi. Tveir leikmenn til viðbótar við þá Orra Óskarsson og Willum Þór Willumsson hafa bæst við meiðslalistann. 

KSÍ greindi frá því núna seinni partinn að þeir Hlynur Freyr Karlsson og Mikael Egill Ellertsson séu meiddir og munu þeir því ekki geta tekið þátt í komandi vináttuleikjum Íslands gegn Englandi á Wembley núna á föstudaginn sem og í leiknum gegn Hollandi í Rotterdam þremur dögum síðar. 

Inn í þeirra stað hafa þeir Valgeir Lunddal Friðriksson og Logi Tómasson verið kallaðir í landsliðið. 

Áður höfðu Willum Þór Willumsson og Orri Óskarsson þurft að draga sig úr landsliðshópnum vegna meiðsla. Ekki var kallaður inn leikmaður í stað Willums en í stað Orra var Sævar Atli Magnússon, leikmaður danska liðsins Lyngby, kallaður inn í hópinn. 

Báðir leikir Íslands í yfirstandandi landsleikjaglugga verða sýndir í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×