Fótbolti

Lög­reglan varar við ensku söng­lagi og mun hand­taka þá sem hylla nas­ista

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stuðningsmenn Englands eru ósvífnir og ganga oft ansi nærri andstæðingum sínum. Lögreglan í Þýskalandi mun hins vegar ekki lýða nasistahyllingar.
Stuðningsmenn Englands eru ósvífnir og ganga oft ansi nærri andstæðingum sínum. Lögreglan í Þýskalandi mun hins vegar ekki lýða nasistahyllingar. Richard Sellers/Sportsphoto/Allstar via Getty Images

Lögreglan í Þýskalandi hefur varað stuðningsmenn enska landsliðsins við því að syngja lag um þýskar sprengjuflugvélar og minnt þá á að nasistakveðjur eru með öllu ólöglegar.

Stuðningsmenn Englands heyrðust syngja lag um „10 þýska sprenjuvarga“ í vináttuleik gegn Bosníu á dögunum. Lagið er sungið í takt við stefið í 10 Green Bottles og texta þess breytt.

Fyrsti leikur Englands á EM verður gegn Serbíu í Gelsenkirchen í Þýskalandi. Lögreglustjórinn þar sagði í samtali við Telegraph:

„Vinsamlegast bara ekki vera fávitar. Ef þeir syngja svona lög get ég svosem ekkert gert í því. Það er ekki ólöglegt. Ég veit að það er langvarandi íþróttarígur milli Þýskalands og Englands en ég vil minna á að hann nær nú einungis yfir íþróttir. Við höfum verið í hernaðarbandalagi í meira en sjö áratugi.“

Þá varaði hann stuðningsmenn sérstaklega við nasistakveðjunni þegar hönd er sett á loft og Hitler hylltur.

„Það er algjörlega ólýðandi og óþolandi. Við munum segja þeim að það er með öllu ólöglegt í Þýskalandi.“

Þýska lögreglan mun því handtaka alla sem hylla nasista, enska knattspyrnusambandið hefur sömuleiðis sagt að allir sem syngi lagið um 10 þýska sprengjuvarga verði bannaðir frá leikjum liðsins.

Þær reglur setti sambandið eftir að lagið var ítrekað sungið í vináttuleik þjóðanna árið 2017. Ekki er þó vitað til þess að því hafi verið framfylgt síðan og enginn af stuðningsmönnum í myndskeiðinu hér fyrir ofan hefur verið bannaður enn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×