Innlent

Kvöld­fréttir RÚV færðar til klukkan níu í sumar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Íþróttir verða áberandi á Ríkisútvarpinu í sumar.
Íþróttir verða áberandi á Ríkisútvarpinu í sumar. Vísir/Vilhelm

Kvöldfréttir Ríkisútvarpsins verða færðar frá klukkan sjö til klukkan níu. Er það gert til að lágmarka raskanir vegna Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu sem hefst á föstudagskvöld sem og Ólympíuleikana í París.

Á vef RÚV segir að íþróttir verði áberandi í sumar þar sem tvö stórmót, EM og Ólympíuleikarnir, verði í beinni útsendingu. Leikir Evrópumeistaramótsins í Þýskalandi fara fram klukkan eitt, fjögur og fimm eftir hádegi og því þarf að seinka kvöldfréttum.

Fyrsti leikur Evrópumeistaramótsins milli Þýskalands og Skotlands fer fram föstudagskvöldið fjórtánda júní klukkan sjö. Ólympíuleikarnir hefjast svo í París rúmri viku síðar, föstudaginn 26. júlí, og standa yfir til sunnudagsins ellefta ágúst. Flestar lykilgreinar verði á kjörtíma og beinar útsendingar verði frá morgni til klukkan rúmlega átta á kvöldin.

Þá verða engar tíufréttir á meðan stórmótunum stendur. Fréttir færast aftur í fyrra horf mánudaginn tólfta ágúst.

„Þótt íþróttir verði fyrirferðamiklar á dagskránni í sumar verður að sjálfsögðu mikið af öðru efni í boði. Í spilaranum verður að finna úrval af sakamálaefni og íslenskum heimildarmyndum ásamt verðlaunamyndum eftir konur, sem hafa verið á dagskrá undanfarnar vikur,“ segir í frétt RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×