Innlent

Kosninga­stjóri og á­hrifa­valdur að­stoða Bjark­eyju

Kjartan Kjartansson skrifar
Bjarki Hjörleifsson og Pálína Axelsdóttir Njarðvík, nýir aðstoðarmenn matvælaráðherra.
Bjarki Hjörleifsson og Pálína Axelsdóttir Njarðvík, nýir aðstoðarmenn matvælaráðherra. Matvælaráðuneytið

Fyrrverandi kosningastjóri Vinstri grænna í norðvesturkjördæmi og samfélagsmiðlaáhrifavaldur hafa verið ráðnir aðstoðarmenn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, matvælaráðherra. Bjarkey tók við embætti í apríl.

Þau Bjarki Hjörleifsson og Pálína Axelsdóttir Njarðvík voru ráðin aðstoðarmenn Bjarkeyjar, að því er segir í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu. Bjarki er fæddur 1989 og ólst upp í Stykkishólmi. Hann vann sem sjálfstæður atvinnurekandi í matvælageiranum á árunum 2013–2018 og útskrifaðist með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2019.

Hann var kosningastjóri hjá Vinstri grænum í norðvesturkjördæmi árin 2017 og 2021. Hann var einnig skrifstofustjóri á flokksskrifstofu Vinstri grænna árin 2019–2020 og vann sem sérfræðingur hjá þingflokki Vinstri grænna frá 2020 til 2024.

Pálína er fædd árið 1991 og ólst upp í Gnúpverjahreppi. Hún útskrifaðist sem stúdent frá Kvennaskólanum árið 2011, er menntuð í sálfræði og útskifaðist með BSc-gráðu frá Háskóla Íslands árið 2016 og MSc í félagssálfræði árið 2019. Á árunum frá 2020 til 2022 starfaði hún sem sérkennslustýra og vann sem ráðgjafi hjá Attentus frá 2023-2024.

Pálína hefur hefur unnið sjálfstætt við efnissköpun og miðlun á samfélagsmiðlum frá árinu 2015 en hún hefur unnið sveitastörf frá unga aldri og deilt þeirri reynslu sinni á Instagram þar sem hún hefur eignast fjölda fylgjenda síðan 2015. Hún heldur úti Instagram-reikningnum FarmLifeIceland sem er með ríflega 271 þúsund fylgjendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×