Fótbolti

Messi ætlar að enda ferilinn í Miami

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi ætlar sér að öllum líkindum að enda ferilinn hjá Inter Miami.
Lionel Messi ætlar sér að öllum líkindum að enda ferilinn hjá Inter Miami. Megan Briggs/Getty Images

Lionel Messi, einn besti knattspyrnumaður allra tíma, ætlar sér að enda ferilinn hjá núverandi liði sínu í Bandaríkjunum, Inter Miami. Hann segist þó ekki hafa neinn áhuga á því að hætta alveg strax.

Messi, sem er orðinn 36 ára gamall, gekk í raðir Inter Miami síðasta sumar frá franska stórveldinu Paris Saint-Germain.

Messi á að baki stórkostlegan feril þar sem hann hefur unnið svo gott sem allt sem í boði er. Á tíma sínum hjá Barcelona vann hann spænsku deildina tíu sinnum og Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum. Þá hefur hann orðið bæði heims- og Suður-Ameríkumeistari með argentínska landsliðinu, ásamt því að hafa verið kosinn besti fótboltamaður heims átta sinnum.

Argentínumaðurinn er samningsbundinn Inter Miami til ársins 2025, en samningur hans felur einnig í sér möguleika á eins árs framlengingu. Í samtali við ESPN sagði Messi að hann myndi að öllum líkindum ekki spila fyrir annað lið áður en skórnir fara á hilluna, þó það sé alls ekki víst hvenær það muni gerast.

„Eins og staðan er í dag held ég að þetta verði mitt síðasta félag,“ sagði Messi. „En ég er ekki tilbúinn að hætta í fótbolta heldur,“ bætti hann við.

Ekki er er að sjá að Messi eigi ekki nóg eftir á tankinum. Í tólf leikjum fyrir Inter Miami á yfirstandandi tímabili hefur hann skorað tólf mörk og lagt upp önnur þrettán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×