Diljá segir slíkt ofbeldi vera Íslendingum sem betur fer framandi en að heiðursofbeldi tíðkist víðs vegar um heiminn og hafi meðal annars borist til Norðurlandanna með innflytjendum.
„Þetta er auðvitað ofbeldi sem er okkur mjög framandi hér. Þetta er alveg hryllileg ómenning í sumum heimshlutum sem hefur borist með innflytjendum meðal annars til Norðurlandanna og hefur verið að koma upp alvarlegt heiðurstengt ofbeldi,“ segir Diljá í samtali við fréttastofu.
Spyr hvort ráðherra hyggist grípa til aðgerða
Hún segir Ísland mjög oft einhverjum árum á eftir Norðurlöndunum í slíkri þróun.
„Við erum mjög oft á eftir Norðurlöndunum þegar kemur að ýmis konar þróun. Ég hef meðal annars verið að taka up kynfæralimlestingar sem við ákváðum að innleiða hérna í hegningarlög út af þróuninni á Norðurlöndunum til að bregðast við tilvikum sem voru þá þegar að koma upp,“ segir Diljá.
Fyrirspurnin felur þrjár spurningar til Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra. Diljá spyr hvort ráðherrann hafi upplýsingar um það hvort heiðurstengt ofbeldi hafi komið upp á Íslandi og hvert sé umfang þess. Þá spyr hún hvaða ákvæði hegningarlaga nái til heiðursofbeldis og hvort ráðherra telji að þau séu fullnægjandi. Að lokum spyr hún hvort ráðherra hyggist grípa til aðgerða til að vinna gegn heiðursofbeldi og ef svo er hvaða aðgerða.
Eigum í fullu fangi með eigin ofbeldismenn
Diljá óskar eftir munnlegu svari og hún segist hafa kosið það form á fyrirspurninni til þess að skapast geti umræða á þinginu um málefnið. Hún segir mikilvægt að málinu sé lyft upp og að vakin sé athygli á því.
„Við eigum í fullu fangi með okkar ofbeldismenn hér og það er rosalega mikilvægt að við sendum skýr skilaboð um að sömu lög og reglur gildi um alla og að við séum ekki að fara að sýna einhverjum svona viðbjóðshefðum og ómenningu eitthvað umburðarlyndi,“ segir Diljá.
Aðspurð hvort hún telji líklegt að fyrirspurnin fái umræðu á þingi segist Diljá vera vongóð. Ekki sjái fyrir endann á þessu þingi.
„Maður sér fram á að eyða sumrinu hérna hvort sem er,“ segir Diljá.