Erlent

Þrír látnir og tugir særðir eftir loft­á­rás á Karkív

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Íbúðarblokk var meðal skotmarka árásarinnar og var hún illa leikin í kjölfar hennar.
Íbúðarblokk var meðal skotmarka árásarinnar og var hún illa leikin í kjölfar hennar. EPA/Sergey Kozlov

Að minnsta kosti þrír létu lífið eftir rússneska loftárás á borgina Karkív í austurhluta Úkraínu í dag. Þar að auki særðust 52.

Fjórum sprengjum var varpað á borgina og hæfðu þær íbúðablokkir, verslanir og stoppistöðvar almenningssamgangna. Fjórir hinna særðu eru sagðir vera lífshættulega særðir.

„Rússnesk hryðjuverk með eldflaugum verður að stöðva og getur verið stöðvað. Afdráttarmikilla ákvarðana vinaþjóða okkar er þörf til að við getum gert út af við rússneska hryðjuverkamenn og rússneskar herþotur þar sem þær eru,“ skrifar Volodímír Selenskí Úkraínuforseti á samfélagsmiðilinn Telegram.

Reuters greinir frá því að björgunarstarf standi yfir í íbúðarblokk með verslun á neðstu hæð. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á svæðinu hrundu þrjár hæðir blokkarinnar en ekki er talið að neinn hafi grafist í rústunum.

Snemma í innrás Rússa í Úkraínu lögðu þeir hald á stóran hluta Karkívhéraðs og sátu um höfuðborg héraðsins. Þeir voru þó reknir á brott frá mestöllu héraðinu síðar árið 2022.

Ríkisstjóri héraðsins greindi einnig frá því í dag að í gær hafi árásir Rússa dregir fimm manns til dauða og sært sjö. Í þeim hluta héraðsins sem er undir stjórn Rússa hefur rússneski ríkisstjórinn sagt að þrír hafi látist og fjórir særst í úkraínskum árásum sama dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×