Málið, sem er afar umfangsmikið, hefur verið til rannsóknar hjá lögreglu um langt skeið. Samkvæmt heimildum var ráðist í aðgerðir þann 24. apríl síðastliðinn þegar skemmtiferðaskip kom til landsins. Tveir menn báru eldhúspotta úr málmi út úr skipinu í bláum Ikea-innkaupapokum. Amfetamín og kókaín fannst innan í fölskum botni pottanna.
Á þriðja tug manna voru handteknir í þágu rannsóknarinnar og framkvæmdar voru rúmlega þrjátíu leitir í umdæminu í tengslum við hana. Auk sex kílóa af amfetamíni og kókaíni var hald lagt á lyf, stera og um 40 milljónir króna í reiðufé, auk nokkurra peningatalningavéla. Þá haldlagði lögregla ýmsar gerðir af skotvopnum og öðrum vopnum, meðal annars skammbyssu búna hljóðdeyfi.
Fimm voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og sæta því enn, utan eins þeirra sem var færður í afplánun vegna eldri dóms.
Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þeir sem sitja í gæsluvarðhaldi allt íslenskir karlmenn. Alls hafa átján stöðu sakbornings í málinu.