Fótbolti

Messi harkaði af sér og Argentína vann nauman sigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi fær aðhlynningu í leiknum gegn Síle.
Lionel Messi fær aðhlynningu í leiknum gegn Síle. getty/Rich Graessle

Argentína vann Síle með minnsta mun, 0-1, í öðrum leik sínum í Suður-Ameríkukeppninni í Bandaríkjunum í nótt.

Lautaro Martínez skoraði eina mark leiksins þegar tvær mínútur voru eftir. Hann byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður fyrir Julián Álvarez á 73. mínútu. Martínez hefur nú skorað fimm mörk í síðustu fimm landsleikjum sínum.

Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, kenndi mér meins í læri í fyrri hálfleik og fékk aðhlynningu. Hann gat þó klárað leikinn og var nálægt því að skora þegar hann skaut í stöng í fyrri hálfleik.

„Þetta truflaði mig svolítið en ég gat klárað leikinn,“ sagði Messi eftir leikinn í New Jersey.

„Vonandi er þetta ekkert alvarlegt. Það var erfitt fyrir mig að hreyfa mig eðlilega. Það kemur í ljós á morgun hvernig mér líður.“

Með sigrinum á Síle í nótt tryggði Argentína sér sæti í átta liða úrslitum Suður-Ameríkukeppninnar. Síle þarf hins vegar að vinna Kanada í lokaumferð riðlakeppninnar til að komast áfram.

Kanada komst upp í 2. sæti A-riðils með 0-1 sigri á Perú í gær. Jonathan David, samherji Hákons Arnars Haraldssonar hjá Lille í Frakklandi, skoraði eina mark leiksins á 74. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×