Fótbolti

Lands­liðs­þjálfari Ís­lands lét gamminn geisa í norska sjón­varpinu

Aron Guðmundsson skrifar
Age Hareide, landsliðsþjálfara Íslands, er umhugað um öryggi leikmanna og dómara
Age Hareide, landsliðsþjálfara Íslands, er umhugað um öryggi leikmanna og dómara Vísir/ Hulda Margrét

Åge Hareide, lands­liðs­þjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta, gagn­rýndi öryggis­gæsluna í kringum leiki á EM í fót­bolta í beinni út­sendingu norska ríkis­sjón­varpsins í gær­kvöldi. Hann óttast um öryggi leikmanna og dómara.

Hareide hefur verið sér­fræðingur norska ríkis­sjón­varpsins (NRK) í kringum leiki á EM í fót­bolta sem fer fram í Þýska­landi þessa dagana og var Norð­maðurinn ein­mitt sér­fræðingur sjón­varpsins í tengslum við leik sinna fyrr­verandi læri­sveina í danska landsliðinu gegn Slóveníu í loka­um­ferð C-riðils í gær.

Í þeim leik átti sér stað at­vik þar sem að á­horf­andi hljóp inn á völlinn. Slíkt hefur gerst áður í tengslum við fót­bolta­leik og verið nokkuð á­berandi á Evrópu­mótinu þetta árið.

Ó­hætt er að segja að Hareide sé ekki  hrifinn af þessu at­hæfi og vill að komið sé í veg fyrir að ein­staklingar geti hlaupið inn á völlinn. 

„Ég skil ekki hvernig þeir (öryggis­verðirnir) ná þeim ekki. Þeir hafa of litla stjórn á að­stæðunum utan vallar,“ sagði Hareide á NRK í gær. „Þetta býður hættunni heim. Í­myndið ykkur ef þessir ein­staklingar grípa í leik­menn eða dómara á vellinum. Það yrði ekki gott. Þess vegna þarf að ná stjórn á þessu. Lífs­hættu­legt at­hæfi.

Og Hareide hélt romsu sinni á­fram í um­ræðum í norska sjón­varpinu eftir leik í gær­kvöldi.

„Þetta er lífs­hættu­legt. Maður veit aldrei. Kannski hleypur ein­hver brjál­æðingur inn á völlinn og ræðst á leik­mann eða dómara. Við þurfum að koma í veg fyrir þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×