Sport

Merktir Ís­landi og Grinda­vík á stóra sviðinu í Frankfurt

Aron Guðmundsson skrifar
Arngrímur Anton Ólafsson og Pétur Rúðrik Guðmundsson mynda landslið Íslands á HM í pílukasti sem hefst í dag í Frankfurt.
Arngrímur Anton Ólafsson og Pétur Rúðrik Guðmundsson mynda landslið Íslands á HM í pílukasti sem hefst í dag í Frankfurt. Vísir/Einar

Full­trúar Ís­lands á Heims­bikar­mótinu í Pílu­kasti stíga á stóra sviðið í Frankfurt á föstu­daginn kemur. Þeir Pétur Rúð­rik Guð­munds­son og Arn­grímur Anton Ólafs­son mynda lands­lið Ís­lands á mótinu en þetta er í annað sinn sem Ís­land er með þátt­töku­rétt á mótinu sem fram fer í Frankfurt í Þýska­landi.

Heims­meistara­mótin í Pílu­kasti eru þekkt fyrir mikið glens og gaman og myndast gríðar­leg stemning á keppnis­dögum mótsins. Stemning sem gæti orðið enn meiri í ár en Evrópu­mótið í fót­bolta fer fram í Þýska­landi á sama tíma

„Spennan er enn að byggjast upp,“ segir Arn­grímur að­spurður hvernig líðan er nú þegar dregur nær því að ís­lenska lands­liðið stigi á svið. „Ég hef aldrei áður upp­lifað það að fara í svona stóran sal. Aldrei farið á stóran körfu­bolta­leik, fót­bolta­leik, ekki neitt þessu líkt. Ég held að sprengjan komi þegar að ég kem upp. 

Við gerum bara okkar besta og ætlum að njóta saman á sviðinu. Við gefum ekkert eftir. Förum alla leið með þetta. Ég veit hvernig við Pétur spilum. Við erum hrika­lega sterkir saman og styðjum hvorn annan alla leið.“

Keppt er í tví­menningi á mótinu og er Ís­land í riðli með reynslu­miklu liði Tékk­lands sem og Bar­ein. Efsta lið riðilsins kemst á­fram í næstu um­ferð en fyrir­komu­lagið tví­menningur reynir á stöðug­leika pílu­kastaranna sem þurfa að bíða lengur eftir sinni um­ferð en gengur og gerist í ein­menningi.

Landslið Wales, með reynsluboltana Jonny Clayton og Gerwyn Price innanborðs, er ríkjandi heimsmeistari í tvímenningi.Vísir/Getty

„Það hjálpar okkur,“ segir Pétur um fyrir­komu­lag mótsins. „Þegar að við lendum á móti góðum liðum, að sam­bandið hjá þeim sé ekki eins gott og hjá okkur. Fyrir okkur snýst þetta bara um að halda inn í mótið og njóta okkar því það virkar mjög vel fyrir okkur tvo að spila saman. 

Það mun hjálpa okkur þegar kemur að því að fara spila. En aðal­málið er náttúru­lega að mæta til­búinn í hausnum til að spila sinn leik. Ef við getum gert það báðir á sama tíma þá yrði það frá­bært.“

Pétur er Grindvíkingur og hefur, líkt og aðrir Grindvíkingar, gengið í gegnum krefjandi tíma sökum jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Hann verður vel merktur á sviðinu í Frankfurt með íslenska fánann málaðan í hægri hlið höfuð síns og hjarta í gula og bláa lit Grindavíkur og póstnúmersins 240 á vinstri hliðinni. Flottir fulltrúar Íslands en ekki síður Grindavíkur.

„Það hefur hjálpað manni í gegnum þennan tíma að hafa píluna. Þannig að mér fannst ekkert annað í boði en að smella á íslenska fánanum öðru megin og svo Grindavík hinu megin.“

Pétur og Toni hefja leika á HM í pílu­kasti á föstu­daginn kemur en mótið hefst í dag og verður sýnt í beinni út­sendingu á Voda­fone Sport rásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×