Englendingar lentu heldur betur í brasi gegn Slóvökum og lentu undir á 25. mínútu þegar Ivan Schranz setti boltann í netið.
Það var svo ekki fyrr en á fimmtu mínútu uppbótartíma að enska liðinu tókst að skora löglegt mark og það var af dýrari gerðinni. Marc Guehi skallaði boltann áfram eftir langt innkast og Jude Bellingham fann netið með hjólhestaspyrnu af stuttu færi.
Harry Kane tryggði Englendingum svo sigur með skallamarki á fyrstu mínútu framlengingarinnar og England mætir því Sviss í átta liða úrslitum.
Allt það helsta úr leik Englands og Slóvakíu í dag, þar sem dramatíkin var alls ráðandi. Schranz, Bellingham og Kane skoruðu mörkin 🏴 pic.twitter.com/egULhpIQp4
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) June 30, 2024
Í seinni leik kvöldsins unnu Spánverjar svo öruggan 4-1 sigur gegn Georgíumönnum. Georgía komst yfir í sinni fyrstu alvöru sókn í leiknum, sem kom þó ekki fyrr en á 19. mínútu, þegar Robin Le Normand varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.
Rodri jafnaði þó metin fyrir spænska liðið stuttu fyrir hálfleikshlé og mörk frá Fabian Ruiz, Nico Williams og Dani Olmo í síðari hálfleik tryggðu Spánverjum öruggan sigur.