Erlent

Enn má pissa í sjóinn á Costa del Sol

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Costa del Sol er gríðarlega vinsæll áfangastaður hjá Íslendingum.
Costa del Sol er gríðarlega vinsæll áfangastaður hjá Íslendingum. Getty/Holger Leue

Borgarstjórn í Marbella-borg á Spáni hefur neitað ásökunum um að bráðlega muni fólk vera sektað fyrir að kasta af sér þvagi í sjóinn á vinsælustu ferðamannaströndum Costa del Sol. Strendurnar eru gríðarlega vinsælar meðal Íslendinga.

Í lok maí samþykkti borgarstjórn Marbella ýmsar nýjar reglur fyrir strendur borgarinnar. Nýju reglunar gera fólki kleift að spila háværa tónlist á ströndunum og spila boltaleiki en ein reglan greip sérstaklega athygli ferðamanna. Samkvæmt nýju reglunum verða þeir sem kasta af sér þvagi eða kúka á ströndinni eða í sjóinn sektaðir um allt að 750 evrur sem nemur um 112 þúsund íslenskum krónum.

Sektin geti orðið allt að 223 þúsund krónum

Í grein dagblaðsins Guardian um málið kemur fram að þeir sem myndu verða uppvísir að því að kúka eða pissa á ströndinni ítrekað á innan við ári gætu átt yfir höfði sér 1.500 evra sekt samkvæmt nýju reglunum. Það nemur um 223 þúsund íslenskum krónum.

Ýmsir íbúar og ferðamenn hafa gagnrýnt þessa samþykkt borgarstjórnar harðlega og hefur verið fjallað ítarlega um málið í staðbundnum fjölmiðlum á svæðinu. 

Viðurkenndi að hann pissaði ítrekað í sjóinn

Einn strandargestur sagði í samtali við fjölmiðil á svæðinu er hann var beðin um viðbrögð við málinu: „Hver mun komast að þessu? Margliturnar?“ Sagði hann og viðurkenndi að hann pissaði ítrekað í sjóinn. 

Upplýsingafulltrúi Marbella-borgar gaf í kjölfarið út tilkynningu og áréttaði að nýju reglurnar ættu ekki við sjóinn. „Samþykktin nær ekki til þessa. Fólk verður ekki sektað fyrir að pissa í sjóinn,“ sagði í tilkynningunni og var tekið fram að fólk yrði aðeins sektað fyrir gjörðir sínar á ströndinni sjálfri. 

Þá getur fólk verið sektað ef það stendur á ströndinni og pissar þaðan út í sjóinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×